Paleo Líf

Paleo – uppskriftir, fróðleikur og fleira gott.


Leave a comment

Paleo tortilla snakk

Það er ekki seinna vænna að keyra Paleolíf aftur í gang, enda nóg um að vera í eldhúsinu hjá mér og Meistaramánuður handan við hornið. Í gærkvöldi átti ég nokkur fullkomlega þroskuð avocado heima hjá mér. Þegar svo býr við kviknar hjá mér löngun í guacamole. Mér finnst guacamole ótrúlega gott. Það er svo dásamleg áferð á því og ekki kemur að sök hvað það er ótrúlega fallegt á litinn. Með guacamole er tilvalið að borða snakk. Svona tortilla snakk. En snakkið sem fæst úti í búð er ekkert sérlega paleo-vænt. Ég tók mig því til í gærkvöldi og bakaði mitt eigið snakk. Svona paleo tortilla snakk. Það er skammt frá því að segja að það var ljúffengt og toppaði auk þess þennan fullkomna skammt af guacamole sem ég hafði útbúið. Uppskriftina er að finna hér að neðan, ásamt uppskrift að guacamole. Verði ykkur að góðu 🙂

tortillasnakk3

Innihaldsefni:

1 bolli Möndlumjöl

1 stk Eggjahvíta

1/2 tsk Sjávarsalt

1/4 tsk Cumin

1/4 tsk Chiliduft

1/4 tsk Cayenne pipar

1/2 tsk laukduft

1/2 tsk hvítlauksduft

2 msk Hörfræ (mega líka vera einhver önnur, lítil fræ)

2 msk Sesamfræ (mega líka vera einhver önnur, lítil fræ)

tortillasnakk2

Aðferð

Stillið ofninn á 160°C, blástur. Eða undir- og yfirhita ef þið búið ekki svo vel að hafa blástursofn.

Setjið öll þurrefnin í skál og hnoðið saman. Ég setti þetta í KitchenAid hrærivélina mína og hrærði með “Káinu”, því hnoðarinn náði ekki að grípa þetta. Hnoðið þar til allt hefur blandast vel saman og komið er þétt deig.

Setjið deigið á bökunarpappír og aðra örk af bökunarpappír yfir. Fletjið því næst út deigið með kökukefli eins þunnt og þið getið. Þetta ætti að fylla heila bökunarplötu. Takið efri örkina af bökunarpappír af, skerið deigið í tígla með pizzaskera eða hníf og setjið plötuna með deiginu inn í 160°C heitan ofn í 10 mínútur eða þar til kantar deigsins brúnast.

Voila – Dýrindis snakk! 🙂

tortillasnakk4

Og þá er það guacamole…

Innihaldsefni

2 stk Avocado

1/3 af Rauðlauk

1/2 Tómatur

1 stk Hvítlauksrif

1 msk Lime safi

Smá salt og pipar

Hnífsoddur chiliduft

tortillasnakk1

Aðferð

Avocado-ið sett í matvinnsluvél og maukað. Restin af hráefnunum sett út í og hakkað þar til allt er komið í litla bita. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél, má stappa avocado-ið með gaffli eða kartöflu-stappara og skera restina af hráefnunum smátt og bæta út í.

Verði ykkur að góðu 🙂

Advertisements


Leave a comment

Súkkulaðibita-prótein-smákökur

Undanfarið hef ég verið að vinna að því hörðum höndum að koma meira próteini inn í fæðu mína. Ég ákvað þess vegna að breyta og bæta súkkulaðibitasmáköku uppskrift sem ég lumaði á og smella svolitlu próteini í hana. Þar sem hið týpíska Whey prótein er ekki paleo-vænt, þá notaði ég svokallað Hemp prótein. Fyrir þá sem ekki vita hvað Hemp prótein er, þá er hér stutt útskyring frá Heilsu, sem flytur inn Hemp prótein frá Pulsin. Það er jafnframt það prótein sem ég notaði 🙂

“Pulsin’ er kaldpressað Hemp prótein, 100% náttúruleg fæða og eitt fullkomnasta og næringarríkasta prótein sem náttúran gefur. Það inniheldur allar mikilvægar amínósýrur sem líkaminn þarfnast, góðan skammt af Omega 3 fitusýrum og er með mjög hátt trefja innihald. Hemp fræin eru ræktuð í Bretlandi á sjálfbæran hátt, án skordýraeiturs, illgresiseyðis eða Hexane.

Kostir Hemp próteins: Kaldpressuð hrá-grænmetis fæða, inniheldur allar nauðsynlegar amínósýrur, frábær uppspretta omega 3 fitusýra, laktósafrítt.”

Image

Þá er okkur óhætt að vinda okkur að uppskriftinni 🙂 Súkkulaðibita-prótein-smákökunum sjálfum.

Innihaldsefni:

1 bolli möndlusmjör eða annað hnetusmjör
2 msk hörfræjar-mjöl (ég setti hörfræ í matvinnsluvél þar til þau urðu að mjöli)
1/4 bolli hunang, raw
1 egg
1 tsk vanilla
1/2 tsk kanill
1/2 tsk matarsódi
60 g súkkulaði (70% eða dekkra)
2 msk prótein (til dæmis Hemp. Fyrir þá sem ekki eru á paleo, er til dæmis hægt að setja Whey prótein)

Image

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C, blástur.
Hrærið öll hráefni að undanskildu súkkulaðinu saman í skál, þar til þykk og góð blanda. Saxið súkkulaðið og hrærið saman við deigið.

Image

Setjið á bökunarplötu með matskeið. Ef þið viljið flatar kökur, en ekki klatta, er gott að þrýsta ofan á deigið með skeið og fletja það þannig svolítið út, áður en bakað er. Bakist í 8 mínútur, eða þar til kökurnar eru gullinbrúnar. Uppskriftin gerir um 15 kökur 🙂

Image

 

MACROS:

Næringargildi per smáköku:

Hitaeiningar: 141 kcal
Kolvetni: 13 g
Þar af trefjar: 3,7 g
Fita: 12 g
Prótein: 10 g


Leave a comment

Prótein í kúluformi

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni hversu mikið ást í kúluformi sló í gegn. Vinkonur mínar ásökuðu mig í hrönnum fyrir seddutilfinninguna sem kom þegar þær borðuðu óvart allar kúlurnar. “Þetta geymist ekkert vel í frysti, Gulla! Þetta hverfur á núll einni”, “Ég gat ekki horft á frystiskápinn, því ég vissi hvað biði mín inni í honum”, “mamma hefur fengið nýja trú á bökunarhæfileikum mínum”. …Langar þig til þess að smella í ást í kúluformi núna? Ég mæli hiklaust með því 🙂

En ég mæli líka hiklaust með þessari nýju uppskrift! Prótein í kúluformi! Ójá. Einstaklega bragðgóðar kúlur og mun fituminni og próteinríkari en ást í kúluformi 🙂 Tilvalið fyrir þá sem vilja aðeins meiri prótein inn fyrir sínar varir með öllu gúmmelaðinu. Líka tilvalið sem “eftir-æfinga-snarl”. Próteinríkt og kolvetnaríkt. Já og fituríkt. Góð blanda þegar líkaminn er í fullri brennslu og góðum fíling.

Image

Innihaldsefni:

1 skeið Prótein (Hemp prótein er paleovænt, aðrir geta t.d. notað Whey, jafnvel með bragði)

1/2 tsk Raw Kakó

2 msk Hnetusmjör (Gróft er betra, eða hreint út sagt ljúffengt!)

2 msk Hunang

1/4 tsk Vanilla

Image

Aðferð: Innihaldsefnin eru öll sett í skál og þeim blandað saman og í kjölfarið hnoðuð. Ég skipti deiginu mínu í tíu litlar kúlur og rúllaði þeim svo upp úr chia-fræjum. Það má líka rúlla því upp úr einhverju öðru sem hugurinn girnist. Eða jafnvel engu 🙂 Ef það á að tríta sig svolítið, sakar ekki að dýfa þeim ofan í 70% súkkulaði 😉

Image

 

Image

MACROS:

Þyngd: 100 g
Hitaeiningar: 373 kcal
Fita: 17 g
Kolvetni: 27 g
Prótein: 28 g

Uppskriftin er í heildina 120 g. Tíu kúlur gera því 12 g á kúlu 🙂


Leave a comment

Paleo Brownies

Í gær fylltist eldhúsið mitt af girnilegum hráefnum. Girnilegum, lífrænum, paleo-vænum hráefnum. Hjarta mitt tók kipp og það kom ekki annað til greina en að smella í köku. Fyrir þá sem þekkja mig, þá vitið þið að ég ELSKA að baka. Bakstur kemur mér alltaf í gott skap og ef ég er í góðu skapi fyrir, þá er það ekkert nema plús. Fyrir þá sem ekki þekkja mig: 

Hæ, ég heiti Guðlaug og ég elska að baka. Hér má líka sjá mynd af mér. Ferlega glöð, að baka 🙂

Image

Mig langar til þess að kynna fyrir ykkur nýjung á blogginu mínu. Héðan í frá verða líka birtar næringarupplýsingar fyrir hverja uppskrift, fyrir þá sem eru að fylgja IIFYM (If it fits your macros) – sem sagt að telja. Þetta verður oftast nær hitaeiningar, fita, prótín og kolvetni. En stundum mun trefjainnihald og fleira fylgja, ef svo ber við. Vonandi verður þetta einhverjum til góðs 🙂

Image

En þá dugar ekki annað en að kynna uppskrift dagsins. Hvorki meira né minna en Paleo Brownies. Omm nomm nomm.. Hverjir eru komnir með vatn í munninn? Uppskriftin er fremur einföld í framkvæmd. Eða reyndar mjög einföld. Deigið verður ótrúlega þægilegt að vinna með og rúsínan í pylsuendanum er sú að þetta er líka ferlega gott. Fyrir þá sem eru ekki mikið fyrir sætindi og vilja fá alvöru kakóbragð, þá mæli ég með að helminga hunangið. En fyrir þessa gömlu, góðu brownie-upplifun, þá dugar ekki annað en að smella öllu hunanginu í uppskriftina. Þá er komið að þessu – Verði ykkur að góðu 🙂 

Image

Innihaldsefni:

450 g Möndlusmjör

2 stk Egg

1 bolli Hunang

1 msk Vanilla

1/2 bolli Kakó

1/2 tsk Salt

1 tsk Matarsódi

Image

Aðferð: Stillið ofninn á 160°C, blástur. Setjið möndlusmjörið í matvinnsluvél og vinnið þar til silkimjúkt. Þá er eggjum, hunangi og vanillu bætt út í og matvinnsluvélin sett aftur af stað. Hafið hana í gangi þar til innihaldsefnin hafa blandast vel saman. Að lokum má skella kakóinu, saltinu og matarsódanum út í og hræra þar til allt hefur mixast. 

Image

Þá dugar ekkert annað en að smyrja vel valið kökumót, smella blöndunni í og dreifa vel úr henni og baka í 35 mínútur við 160°C. 

MACROS:

Þyngd: 100 g
Hitaeiningar: 560 kcal
Fita: 40 g
Kolvetni: 37 g
Þar af Trefjar: 2.4 g
Prótein: 13 g


Leave a comment

Kíwí-ís – “Kíwís”

Líkt og áður hefur komið fram er ég forfallinn ís-aðdáandi. Ef ég ætla að leyfa mér eitthvað gómsætt, er það alla jafna ís. Eða súkkulaði. Eða ís og súkkulaði saman – Það toppar allt. Ég var búin að setja inn uppskrift að paleo ís, en nú er komið að öðru og jafnvel betra! Paleo frostpinna 🙂 

Image

Þessi uppskrift er mjög einföld og inniheldur aðeins tvö hráefni: Kíwí og 70% súkkulaði. Fyrir þá sem ekki leyfa sér neitt súkkulaði á paleo, er auðvitað hægt að gera íspinnana súkkulaðilausa. Það er að sjálfsögðu ekki jafn gourme og með súkkulaði, en frískandi engu að síður. Þá er ekkert annað eftir en að vinda sér í uppskriftina – Og nóg af myndum! Verði ykkur að góðu 🙂

Image

Innihaldsefni:

2 Kíwí

100g 70% súkkulaði (Það þarf cirka 80g, en betra að hafa ríflega)

Image

Aðferð:

Afhýðið kíwí-in og skerið þau í tvennt, þversum. Stingið því næst íspinna eða öðru spreki í þá, leggið á bakka, bretti eða hvað sem ykkur er næst og smellið í frysti. Bíðið þolinmóð í að minnsta kosti klukkustund. 

Image

 

ImageImage

 

Image

 

Image

Bræðið 70% súkkulaði yfir vatnsbaði. Takið kíwí-ið úr frysti og hellið súkkulaði yfir pinnana. Súkkulaðið harðnar um leið, sökum hitastigs kíwí-sins. Geymist vel í frysti! Njótið 🙂


Leave a comment

“Jóla”-möndlur

Það viðurkennist fúslega að ég kalla þessar möndlur jólamöndlur. Hvort sem það er febrúar eða desember. Þær bragðast nefninlega svolítið eins og jólin. Það þýðir hins vegar ekki að þær séu bundnar við jólin. Nei, aldeilis alls ekki. Þær eru fullkomnar árið um kring. Til að narta í þegar farið er í bíó. Yfir sjónvarpinu. Í rútu. Í Herjólfi. Í flugi. Í vinnunni. Yfir HIMYM. Yfir fréttunum. Hvar sem er. Hvenær sem er. 

Og það sem er best við þetta allt saman – Þær eru ótrúlega einfaldar í framleiðslu og það þarf mjög fá hráefni – Ekki nema þrjú: Möndlur, kanil og hunang. Og óttist ekki. Það þarf alls ekki neinar sjö dósir af hunangi sem gera möndlurnar dísætar og enn hitaeiningaríkari en þær eru. Það þarf bara örfáar matskeiðar. Uppskriftin fylgir að neðan. Verði ykkur að góðu 🙂

Image

Innihaldsefni:

500 g Möndlur með hýði

1/2 tsk Kanill

2 msk Hunang

 

Aðferð: Stillið bakaraofninn á 180°C og setjið bökunarpappír á plötu. Setjið kanilinn og hunangið í pott og hitið þar til alveg fljótandi. Þetta tekur stutta stund á litlum hita. Þegar hunangið verður aðeins vökvakenndara, er það tilbúið. Setjið möndlurnar í skál, helilð blöndunni yfir og mixið vel saman. Hellið því næst möndlunum með gúmmelaðinu á fyrrnefnda bökunarplötu og dreifið vel úr. Sett í ofn og bakað í 20 mínútur. Ég nota alltaf blástur 🙂 Að tímanum liðnum er platan tekin úr ofninum og möndlunum leyft að kólna. Voila! Jólamöndlur fyrir öll tilefni 🙂


Leave a comment

Bananabrauð

Pabbi bauð mér í vöfflur í dag. Jahh, eða svona næstum því. Ég bað pabba um að bjóða mér í vöfflukaffi í dag. Vöfflurnar hans pabba eru langbestar! Í tilefni af því að ég hafði boðið sjálfri mér í kaffi, ákvað ég að baka bananabrauð til þess að taka með mér. Það eru reyndar fleiri ástæður fyrir því að ég bakaði þetta bananabrauð: Ég fékk fyrirspurn um paleo bananabrauð á dögunum, mér þykja bananar mjög góðir, ég átti gamla banana og einfaldlega vegna þess að mig langaði til þess að baka. 

Image

Uppskriftin að þessu bananabrauði er frá the Civilized Caveman. Ég breytti uppskriftinni ekkert að viti, eiginlega ekki neitt. Setti kókosolíu en ekki smjör, en annars fór ég að ráðum hellisbúans. Og það brást heldur betur ekki. Bananabrauðið var alveg hreint ljúffengt og góð viðbót við vöfflukaffið hjá pabba. Uppskriftin er hér að neðan. Verði ykkur að góðu 🙂

Image

Innihaldsefni:

4 Bananar

4 Egg

1/2 bolli Möndlusmjör

4 msk Kókosolía

1/2 bolli Kókoshveiti

1 msk Kanill

1 tsk Matarsódi

1 tsk Lyftiduft

1 tsk Vanilla (ég nota alltaf dropa)

Klípa af sjávarsalti

 

Aðferð: Byrjið á því að stilla ofninn á 180°C, blástur. Ef þið eigið ekki blástursofn, þá er það bara undir- og yfirhiti. Því næst er að velja sér búnað við hæfi. Ég notaðist við hrærivélina mína, en það er einnig hægt að nota matvinnsluvél eða blandara. Eða handþeytara ef það er það eina sem er tiltækt 🙂 

Image

 

Setjið banana, egg, kókosolíu og möndlusmjör í hrærivélina og þeytið vel saman. Bætið því næst við afganginum af hráefnunum og blandið vel. Þá er brauðform annað hvort fituborið eða örk af bökunarpappír sett í það. Deiginu er helt í formið og því smellt inn í ofn. Bakist við 35-40 mínútur. Þið getið stungið í brauðið til þess að athuga hvort það sé bakað í gegn, en annars finnst það líka á ilminum og sést á áferðinni 🙂

Image